Einstakt tækifæri á bökkum Norðurár!
Vönduð og vegleg heilsárshús til sölu á eignarlandi í rómaðri náttúrufegurð Borgarfjarðar!
Vönduð og varanleg eign
Frístundabyggðin er deiliskipulögð af Hildigunni Halldórsdóttur arkitekt. Húsin standa á eignarlandi og eru byggð eftir stöngum kröfum um gæði og allan frágang. Arkitekt húsanna er Guðfinna Thordarson. Húsin eru á einni hæð og að stofni til byggð úr forsteyptum samlokueiningum frá Loftorku og klædd að utan með viðhaldsfríum klæðningum úr timbri, áli, eða steinflísum, en að öðru leyti úr timbri. Klæðningar eru í jarðlægum litum og þök að hluta klædd með holtaþökum, til þess að húsin falli sem best inn í umhverfið, birkikjarr og mosavaxið hraun. Aðalhús og aukahús mega vera allt að 140 m2, en auk þess má byggja lagnakjallara undir norðurhluta hússins, þar sem land leyfir. Húsin eru hituð með hitalögn sem steypt er í ílögn ofan á gólfplötu. Í húsunum er heitt og kalt vatn, þriggja fasa rafmagn og fullkomnar rafmagnslagnir, gagnaveita og fráveitukerfi. Vegir liggja að öllum húsum og bílastæðieru við húsin.
Svæðið er náttúruperla
Frístundabyggðin er á bökkum Norðurár skammt fyrir ofan fossinn Glanna og náttúruvættið Paradísarlaut, þar sem bergvatn kemur undan Grábrókarhrauninu og myndar lítið kristaltært vatn í ægifögrum gróðurvöxnum hvammi. Vikrafell, Hraunsnefsöxl, Hvassafell, Baula, Grjótháls og Hallamúli mynda sterkan fjallahring um svæðið, en nær blasir við Jafnaskarðsskógur og birkivaxnar hlíðar jarðanna Laxfoss, Hreðavatns og Brekku með elddyngjurnar Grábrók og Grábrókarfell, oft kallað Rauðbrók í forgrunn. Mikil veðursæld er jafnan á þessu svæði og um það eru óteljandi gönguleiðir, stuttar og langar, léttar og erfiðar. Næst byggðinni liggur nýr níu holu golfvöllur, Háskólinn að Bifröst og Hreðavatnsskáli, sem hinn þekkti veitingamaður Vigfús Guðmundsson byggði og rak í fjölda ára. Þessu öllu og rómantík svæðisins lýsir Hreðavatnsvalsinn og en svæðið var jafnan nefnt draumaland elskenda.